Almenn ákvæði
1. grein
1.1 Eftirfarandi siðareglur, sem eru hluti af samþykktum Félags bókhaldsstofa ( FB), gilda fyrir félagsmenn FB og fyrirtæki þeirra. Markmið reglnanna eru sem hér segir:
a) Að stuðla að heiðarlegum og hreinskiptum samskiptum félagsmanna FB.
b) Að stuðla að því, að félagsmenn FB vinni störf sín af fagmennsku, kostgæfni og samviskusemi.
c) Að stuðla að gæðaþjónustu til viðskiptavina, samfélaginu til heilla.
d) Að stuðla að góðu orðspori félagsmanna FB.
2. grein
2.1 Sérhver félagsmaður FB skal vinna öll sín verk í samræmi við þessar siðareglur og þær almennu starfsreglur, sem hæfir og samviskusamir félagsmenn FB fara eftir á hverjum tíma. Félagsmenn FB skulu kynna siðareglur þessar fyrir starfsmönnum sínum og undirverktökum.
2.2 Það er skylda hvers félagsmanns FB að leitast við að uppfylla þær kröfur, sem gerðar eru til starfa félagsmanna FB á hverjum tíma.
a) Félagsmaður FB skal í hvívetna halda lög og reglur sem að starfi hans og framkvæmd þess lúta. Félagsmaður FB skal vinna verk sín í samræmi við góða bókhalds- skoðunar- og reikningsskilavenju eftir því sem við á. Félagsmaður FB skal vinna starf sitt í samræmi við þær reglur og staðla sem stjórnvöld setja hverju sinni.
b) Félagsmaður FB skal vera hreinskilinn og heiðarlegur í starfi sínu og gæta réttsýni og hlutlægni í umsögnum sínum.
c) Félagsmaður FB skal gæta þagmælsku um það er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara og láta það ekki þriðja aðila í té án sérstaks leyfis, nema honum sé það skylt lögum samkvæmt. Trúnaður ríkir áfram þótt verkefni sé lokið eða viðskiptasambandi hafi verið slitið.
d) Félagsmanni FB ber að viðhalda faglegri hæfni sinni og taka aðeins að sér þau störf sem hann eða fyrirtæki hans getur búist við að geta leyst á faglegan hátt. Félagsmanni FB er jafnframt skylt að tryggja að þeir sem starfi hjá honum fái viðeigandi þjálfun og leiðsögn miðað við starf viðkomandi og gæti þagmælsku sb. c.lið hér að ofan.
e) Félagsmaður FB skal gæta heiðurs félagsins og forðast að gera nokkuð það sem getur skaðað álit þess.
Samskipti innan félagsins
3. grein
3.1 Óheimilt skal félagsmanni FB að eiga frumkvæði að því að gengið sé á hlut annars félagsmanns.
3.2 Félagsmaður FB má einungis gagnrýna störf annars félagsmanns FB á málefnalegum grundvelli og skal forðast að valda honum álitsspjöllum umfram það sem málefnið gefur ástæðu til.
3.3 Bjóði nýr viðskiptavinur verkefni, sem til þess tíma hefur verið unnið af öðrum félagsmanni FB, er afar æskilegt að félagsmaður FB leiti sér upplýsinga hjá fyrri félagsmanni FB, um hvaða ástæður hann telji vera fyrir því að hann haldi ekki verkefninu.
3.4 Sé til þess mælst við félagamann FB að hann geri tilboð í verk sem til þess tíma hefur verið unnið af öðrum félagsmanni FB, skulu útreikningar tilboðsins unnir á viðurkenndan og eðlilegan hátt.
Tengsl við viðskiptavini
4. grein
4.1 Hafi félagsmaður FB að fyrra bragði samband við einstaklinga, fyrirtæki eða stofnanir sem þegar njóta þjónustu annarra félagsmanna FB í því skyni að stofna til viðskiptasambanda, skal hann sýna háttvísi í hvívetna og veita réttar og faglegar upplýsingar. Sama á við gagnvart dánarbúi látins félagsmanns FB, þrotabúi gjaldþrota félagsmanns FB eða í hliðstæðum tilvikum.
4.2 Félagsmaður FB skal upplýsa viðskiptavin um það ef ljóst er að hagsmunir viðskiptavina og félagsmanns FB eða fyrirtækis hans skarast að einhverju leiti.
Almannatengsl
5. grein
5.1 Félagsmanni FB ber að sýna háttvísi í hvívetna við að auglýsa og kynna þjónustu sína. Auglýsingar eða önnur hliðstæð söluráð skulu fela í sér réttar og fullnægjandi upplýsingar.
Tengsl við aðrar starfsgreinar o.fl.
6. grein
6.1 Hafi félagsmenn FB sérstakar deildir innan fyrirtækja sinna, sem annast rekstrarráðgjöf, tölvuþjónustu, lögfræðiaðstoð eða aðra sérfræðiþjónustu, eða tengist þeir öðrum fyrirtækjum sem veita þessa þjónustu, skulu félagsmenn FB sérstaklega gæta að faglegu sjálfstæði sínu og óhæði sem félagsmenn FB.
Kæruákvæði
7. grein
7.1 Kærur vegna brota á reglum þessum getur sérhver félagsmaður í FB og stjórn FB lagt fram. Einnig getur viðskiptavinur lagt fram kæru telji hann brotið á sér samkvæmt siðareglum þessum.
7.2 Kærur skulu sendar samskiptanefnd með sannanlegum hætti. Ef samskiptanefnd telur gilda ástæðu fyrir kærunni skal hún senda viðkomandi félagsmanni hana með sannarlegum hætti.
Samskiptanefnd FB
8. grein
8.1 Samskiptanefnd skal kosin á aðalfundi félagsins og skipuð 3 mönnum og 2 til vara.
Nefndin skiptir með sér verkum. Samskiptanefnd skilar árlegri skýrslu til stjórnar um málafjölda og afgreiðslu mála. Einnig skal nefndin hafa frumkvæði að endurskoðun á siðareglum þessum.
8.2 Oddviti samskiptanefndar kallar hana saman og ákveður fundarstað og tíma. Vinna samskiptanefndar getur farið fram eftir þeim samskiptaleiðum sem hentugastar þykja hverju sinni.
8.3 Félagsmanni FB skal skylt að gera samskiptanefnd viðhlítandi grein fyrir máli sínu út af meintu broti og ágreiningi um skilning á reglum þessum. Ber félagsmanni FB í því efni að svara og sinna án ástæðulauss dráttar fyrirspurnum og kvaðningu samskiptanefndar.
8.4 Samskiptanefnd skal leitast við að leysa skoðanaágreining málsaðila, en ekki verða neinar samþykktir gerðar nema báðir málsaðilar séu þeim sammála.
8.5 Samskiptanefnd skal halda fundargerðarbók um afgreiðslu mála þó ekki á rafrænu formi.
8.6 Takist samskiptanefnd ekki að leysa skoðanaágreining málsaðila þá skal hún leggja viðkomandi mál fyrir aðalfund. Samkvæmt 8. gr. samþykkta FB getur aðalfundur vikið félagsmanni úr félaginu fyrir sannarlega alvarlegt brot gagnvart: opinberum aðilum, viðskiptavinum, öðrum félasmönnum eða félaginu sjálfu.
Breytingar
9. grein
9.1 Breytingar á siðareglum þessum skal gera á sama hátt og mælt er fyrir um breytingar á samþykktum FB.
Samþykkt á aðalfundi Félags bókhaldsstofa á Hótel Sögu 5. mars 2011.